Aron samdi til tveggja ára í Katar

Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson sameinast í Katar.
Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson sameinast í Katar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katarska knattspyrnufélagið Al Arabi staðfesti formlega rétt í þessu að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson muni ganga til liðs við félagið í sumar.

Aron Einar rennur út á samningi við velska félagið Cardiff sem leikur í ensku úrvalsdeildinni eftir tímabilið. Hann fer því á frjálsri sölu til Katar í sumar, þar sem hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við Al Arabi, með möguleika á þriðja árinu.

Hjá Al Arabi mun Aron spila undir stjórn Heimis Hallgrímssonar sem tók við liðinu í desember.

Aron, sem verður þrítugur í næsta mánuði, hefur verið í herbúðum Cardiff frá árinu 2011 og verið lykilmaður þess undanfarin ár. Hann hefur komið við sögu í 20 leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni í vetur, en alls á hann að baki 278 leiki fyrir liðið í öllum keppnum.

Al Arabi er í sjötta sæti af tólf liðum í efstu deild í Katar að loknum 19 umferðum. Félög í deildinni mega hafa fjóra erlenda atvinnumenn hvert í sínum röðum, og þar af verður þá einn að vera frá Asíuþjóð.

Al Arabi birti eftirfarandi myndskeið á Twitter-síðu sinni nú rétt í þessu þar sem koma Arons var staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert