Giggs svarar Zlatan fullum hálsi

Ryan Giggs.
Ryan Giggs. AFP

Ryan Giggs hefur svarað Zlatan Ibrahimovic fullum hálsi eftir ummæli Svíans í garð goðsagna Manchester United.

Zlatan skaut á hinn svokallaða ´92-árgang United sem inniheldur goðsagnir á borð við David Beckham, Ryan Giggs, Gary og Phil Neville og Paul Scholes. Sagði Zlatan að þeir væru nú bara álitsgjafar í sjónvarpi þar sem þeir kvarta og kveina og væru ekkert tengdir Man. United sem félagi lengur.

Giggs benti Zlatan á að í sameiningu ættu þeir félagar um 3.450 leiki samanlagt fyrir félagið og að þeir væru í fullum rétti að tjá sig um gang mála þar innanbúðar.

„Þannig á fótbolti að vera, að skiptast á skoðunum. En hann [Ibrahimovic] veit greinilega miklu meira um þetta félag en við,“ sagði Giggs.

Zlatan var á mála hjá United á árunum 2016-2018.

mbl.is