Viðar Örn tilbúinn í fyrstu 12 umferðirnar

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.

Stokkhólmsfélagið Hammarby er komið í hóp Íslendingaliða á ný en knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson samdi við félagið í gær. Hann verður þar í láni frá Rostov í Rússlandi fram á mitt sumar og gæti því að minnsta kosti tekið þátt í fyrstu tólf umferðum sænsku úrvalsdeildarinnar sem fer í fjögurra vikna sumarfrí í byrjun júní.

Hammarby sem endaði í fjórða sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta ári er eitt af vinsælustu knattspyrnuliðum á Norðurlöndum, er þekkt fyrir ástríðufulla stuðningsmenn og fær allt að 30 þúsund manns á heimaleikina. Fyrsti leikurinn á tímabilinu fer fram mánudaginn 1. apríl þegar Hammarby mætir Elfsborg á útivelli.

Viðar kannast við sig í Svíþjóð en hann lék með Malmö mestan hluta tímabilsins 2016. Hann varð sænskur meistari með liðinu og varð næstmarkahæstur í deildinni með 14 mörk, þrátt fyrir að hann væri seldur til Maccabi Tel Aviv þegar enn voru tíu umferðir eftir af tímabilinu.

Viðar verður áttundi íslenski knattspyrnumaðurinn sem leikur með Hammarby.

*Pétur Hafliði Marteinsson kom þangað fyrstur árið 1996 og lék samtals í sjö ár með félaginu, með fjögurra ára hléi, síðast 2006.

*Pétur Björn Jónsson lék með Hammarby árið 1998.

*Gunnar Þór Gunnarsson, núverandi leikmaður KR, lék með Hammarby 2006 og 2007.

*Heiðar Geir Júlíusson lék með Hammarby árið 2007.

*Birkir Már Sævarsson, núverandi leikmaður Vals, lék með Hammarby frá 2015 til 2017.

*Ögmundur Kristinsson, núverandi leikmaður Larissa, lék með Hammarby frá 2015 til 2017.

*Arnór Smárason, núverandi leikmaður Lilleström, lék með Hammarby frá 2016 til 2018.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert