Metfjöldi sá Wolfsburg tapa í Lyon

Sara Björk Gunnarsdóttir gat ekki komið í veg fyrir tap.
Sara Björk Gunnarsdóttir gat ekki komið í veg fyrir tap. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar hennar í Wolfsburg máttu þola 1:2-tap á útivelli fyrir Lyon í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld, fyrir framan 17.840 áhorfendur, sem er nýtt met í átta liða úrslitum keppninnar. 

Sara Björk lék allan leikinn á miðjunni hjá Wolfsburg en gat ekki komið í veg fyrir tap. Liðin mættust í úrslitaleik keppninnar á síðustu leiktíð og vann Lyon þá 4:1-sigur. Sara Björk spilaði einmitt úrslitaleikinn, en þurfti að fara meidd af velli snemma í seinni hálfleik. 

Eugénie Le Sommer, sem skoraði í úrslitaleiknum, kom Lyon yfir með marki á 11. mínútu og sjö mínútum síðar bætti Wendie Renard við marki. Staðan í hálfleik var 2:0, en Wolfsburg neitaði að gefast upp. Nilla Fischer minnkaði muninn á 64. mínútu og þar við sat. 

Síðari leikurinn fer fram í Wolfsburg á miðvikudaginn eftir viku. 

mbl.is