Stórleikur hjá Söru í Lyon í kvöld

Sara Björk Gunnarsdóttir hjá Wolfsburg og Dzsenifer Marozsán hjá Lyon …
Sara Björk Gunnarsdóttir hjá Wolfsburg og Dzsenifer Marozsán hjá Lyon í úrslitaleik Meistaradeildarinnar síðasta vor. Þær mætast aftur í Lyon í kvöld. AFP

Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar í þýska meistaraliðinu Wolfsburg fá í kvöld tækifæri til að hefna harma sinna frá úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu síðasta vor en þá mæta þær Evrópumeisturunum Lyon í átta liða úrslitum sömu keppni.

Lyon vann úrslitaleikinn í Kiev síðasta vor, 4:1, eftir framlengingu þar sem Sara þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir tæplega klukkutíma leik.

Lyon og Wolfsburg hafa verið öflugustu félagslið Evrópu undanfarin ár og mæta til leiks í kvöld sem topplið deildanna í Frakklandi og Þýskalandi. Lyon er taplaust í efsta sætinu í Frakklandi, hefur unnið sautján leiki og gert eitt jafntefli, en Wolfsburg hefur unnið þrettán af sextán leikjum sínum í þýsku deildinni og aðeins tapað einum leik.

Þetta er fyrri viðureignin en sú síðari fer fram í Wolfsburg næsta miðvikudag. Sigurliðið samanlagt mætir annaðhvort Chelsea eða París SG í undanúrslitum keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert