Og við sem réðum ekki Heimi

Leikvangurinn í Astana þar sem leikið var á gervigrasi undir ...
Leikvangurinn í Astana þar sem leikið var á gervigrasi undir færanlegu þaki í dag. Ísland vann þarna 3:0 sigur fyrir fjórum árum en Skotar lágu 3:0 í dag.

Skotum svíður mjög ósigurinn gegn Kasakstan, 3:0, í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu í dag en skellurinn er mikið áfall fyrir skoska landsliðið sem ætlaði sér stóra hluti í keppninni.

Skotinn Marc Boal, sem hefur fjallað mikið um íslenskan fótbolta á undanförnum árum og gefið reglulega út blöð sem eru tileinkuð honum, er ekki sáttur við að skoska knattspyrnusambandið skyldi ekki ráða Heimi Hallgrímsson til starfa en hann var orðaður við landsliðsþjálfarastöðuna hjá Skotum áður en Alex McLeish var ráðinn.

„Algjör hneisa fyrir Skotland og stórveldið San Marínó telur sig örugglega eiga góða möguleika! Versta frammistaða sögunnar hjá skosku landsliði. Vandræðalegt! Og að hugsa sér að við skyldum ekki ráða Hallgrímsson en tókum þennan bjána McLeish í staðinn,“ skrifaði Boal á Twitter eftir leikinn.

mbl.is