Kallaður negri af eigin stuðningsmönnum

Leroy Sané varð fyrir kynþáttafordómum eigin stuðningsmanna í vináttuleik Þýskalands ...
Leroy Sané varð fyrir kynþáttafordómum eigin stuðningsmanna í vináttuleik Þýskalands og Serbíu í vikunni. AFP

Knattspyrnumennirnir Leroy Sané og Ilkay Gündogan, leikmenn Manchester City og þýska landsliðsins, voru í eldlínunni með landsliði sínu á miðvikudaginn síðasta þegar Þýskaland gerði 1:1-jafntefli við Serbíu í vináttuleik í Wolfsburg.

Báðir leikmennirnir urðu fyrir kynþáttaníði í leiknum af hendi þýskra stuðningsmanna en það eru þýskir fjölmiðlar sem greina frá þessu í dag. Sané, sem er af afrísku bergi brotinn, var margoft kallaður negri af stuðningsmönnum þýska liðsins í leiknum og þá var Gündogan níddur fyrir tyrkneskan uppruna sinn en foreldar hans eru frá Tyrklandi.

Samkvæmt þýskum fjölmiðlum voru það þýskir nýnasistar í stúkunni sem gerðu hróp og köll að leikmönnunum en þrír menn hafa verið handteknir í Wolfsburg vegna málsins en Þjóðverjar eru sagðir í sárum vegna málsins og voru leikmenn þýska landsliðsins duglegir að verja samherja sína í landsliðinu eftir leikinn.

„Þjóðernishyggja og rasismi eiga ekkert skylt við fótbolta og samfélagið okkar,“ sagði Leon Goretzka, miðjumaður liðsins, í samtali við þýska fjölmiðla eftir leik og Marco Reus, leikmaður Dortmund, tók í sama streng. „Við stöndum fyrir fjölbreytileikanum. Húðlitur og uppruni hefur skiptir okkur engu máli,“ sagði Reus enn fremur.

mbl.is