Mótherjar Íslands ráku þjálfarann

Christian Panucci stýrði Albaníu í síðasta skipti í gær.
Christian Panucci stýrði Albaníu í síðasta skipti í gær. AFP

Ítalinn Christian Panucci var rekinn úr starfi landsliðþjálfara karlaliðs Albaníu í fótbolta í dag, eftir 0:2-tap fyrir Tyrklandi í undankeppni EM 2020 í gærkvöldi. Albanía er í sama riðli og Ísland í undankeppninni. 

Panucci tók við Albaníu af landa sínum Gianni De Biasi í júlí árið 2017 og stýrði liðinu í 15 leikjum. Í þeim vann Albanía aðeins fjóra leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði níu. Panucci var farsæll leikmaður og vann m.a. Meistaradeild Evrópu með AC Milan og Real Madríd. 

Eftir að Albanía komst á EM í Frakklandi árið 2016 hefur lítið gengið. Liðið hafnaði í þriðja sæti í sínum riðli í undankeppni HM 2018 og endaði í neðsta sæti síns riðils í Þjóðadeildinni í kjölfarið. 

Ervin Bulku og Sulejman Mema stýra albanska liðinu er það mætir Andorra á mánudaginn. Ísland mætir Albaníu á Laugardalsvelli 8. júní næstkomandi og í Albaníu 10. september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert