Mourinho ætlar að snúa aftur í sumar

José Mourinho vill nýtt starf í sumar.
José Mourinho vill nýtt starf í sumar. AFP

Knattspyrnustjórinn José Mourinho vill nýtt starf fyrir næsta tímabil. Mourinho, sem er 56 ára gamall, stýrði síðast Manchester United, en var rekinn í desember á síðasta ári. Síðan þá hefur hann hafnað fjórum starfstilboðum. 

„Ég vil mæta aftur í sumar og vera hjá nýju félagi í júní fyrir undirbúningstímabilið,“ sagði Mourinho við BeIN Sports. „Ég veit nákvæmlega hvað ég vil ekki og því hef ég hafnað fjórum félögum til þessa. Ég er ekki með sérstakt félag í huga en ég veit hvað ég vil,“ bætti hann við. 

„Ég sakna þess ekki að stýra fótboltaliði. Ég er búinn að vera án félags í meira en tvo mánuði og ég er að gera mig kláran fyrir næsta starf. Það er ekki eins og ég sé í fríi. Það er nóg að gera hjá mér og ég kem sterkari til baka,“ sagði Portúgalinn. 

mbl.is