Skellur og Messi aftur í frí

Lionel Messi með boltann í leiknum við Venesúela í gærkvöld.
Lionel Messi með boltann í leiknum við Venesúela í gærkvöld. AFP

Argentínumenn fengu óvæntan skell gegn Venesúela í vináttulandsleik í knattspyrnu sem fram fór á velli Atlético í Madríd á Spáni í gærkvöld, 1:3, og eftir hann var tilkynnt að Lionel Messi hefði dregið sig út úr hópnum á nýjan leik.

Messi lék þarna sinn fyrsta landsleik frá því á heimsmeistaramótinu í Rússlandi síðasta sumar en náði sér ekki á strik. Hann heldur heim til Barcelona og fer ekki með liðinu til Marokkó þar sem það spilar annan vináttulandsleik á þriðjudaginn. Forráðamenn argentínska liðsins sögðu að það væru varúðarráðstafanir vegna smávægilegra nárameiðsla.

Ósigur gegn Venesúela telst vera áfall fyrir Argentínumenn, enda mótherjarnir löngum verið lakasta landslið Suður-Ameríku.

Salomón Rondón kom Venesúela yfir strax á 6. mínútu og Jhon Murillo bætti við marki rétt  fyrir hlé. Lautaro Martínez minnkaði muninn fyrir Argentínu á 59. mínútu en Josef Martínez gulltryggði venesúelskan sigur með marki úr vítaspyrnu á 75. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert