Barcelona blandar sér í baráttuna um Jovic

Luka Jovic í landsleik með Serbíu gegn Þýskalandi á dögunum.
Luka Jovic í landsleik með Serbíu gegn Þýskalandi á dögunum. AFP

Knattspyrnufélagið Barcelona hefur blandað sér í baráttuna um að fá Luka Jovic til liðs við sig frá þýska liðinu Eintracht Frankfurt.

Jovic er 21 árs framherji og serbneskur landsliðsmaður en hann hefur skoraði 15 mörk í 24 leikjum í þýsku efstu deildinni á þessu tímabili. Þá hefur hann einnig skorað sjö mörk í Evrópudeildinni og hjálpað félaginu að komast í 8-liða úrslit.

Það er Fabrizio Romano, blaðamaður The Guardian, sem greinir frá þessu en að hans sögn ætlar Barcelona að bjóða 58 milljónir evra í leikmanninn. Jovic er lánsmaður frá Benfica í Portúgal en Frankfurt hefur nú þegar samið um að kaupa hann í sumar.

Barcelona er sagt sjá Jovic sem góðan arftaka fyrir Brasilíumanninn Philippe Coutinho sem er sagður á förum frá spænska risanum í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert