„Fannst ég illa svikinn“

Virgil van Dijk fékk ekki traustið hjá uppeldisfélagi sínu Willem ...
Virgil van Dijk fékk ekki traustið hjá uppeldisfélagi sínu Willem II í Hollandi á sínum tíma. AFP

Virgil van Dijk, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool og hollenska landsliðsins, er af mörgum talinn besti varnarmaður heims í dag. Van Dijk varð dýrasti varnarmaður heims í janúar á síðasta ári þegar Liverpool borgaði Southampton 75 milljónir punda fyrir miðvörðinn.

Van Dijk er uppalinn hjá Willem II í Hollandi en hann samdi við Groningen í Hollandi árið 2010, þá 19 ára gamall. Félagaskiptin vöktu nokkra athygli á sínum tíma en Van Dijk var í tíu ár hjá Willem II áður en hann skipti um félag.

„Ég var uppalinn í borginni og Willem II var mitt félag. Ég gaf allt mitt fyrir félagið og þetta voru mikil vonbrigði á sínum tíma, að þeir skyldu ekki hafa meiri trú á mér en þetta. Ef Willem II hefði haft sömu trú á mér og önnur félög hafa gert í seinni tíð hefðu hlutirnir getað þróast öðruvísi.“

„Í sannleika sagt þá fannst mér ég illa svikinn. Það var eins og þeir hafi ekki haft neina trú á mér sem atvinnumanni í knattspyrnu,“ sagði van Dijk í samtali við hollenska fjölmiðla en varnarmaðurinn öflugi er 27 ára gamall og er í harðri baráttu með Liverpool um enska meistaratitilinn.

mbl.is