Lagerbäck hrósar íslensku pressunni

Lars Lagerbäck virðist sakna íslenskra blaðamanna miðað við ummæli sem ...
Lars Lagerbäck virðist sakna íslenskra blaðamanna miðað við ummæli sem hann lét falla á blaðamannafundi norska landsliðsins í dag. AFP

Lars Lagerbäck, fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og núverandi þjálfari norska landsliðsins, lét norska blaðamenn heyra það í vikunni eftir leik Noregs og Spánar í undankeppni EM. Leiknum lauk með 2:1-sigri Spánverja á Mestalla-vellinum í Valencia en Sergio Ramos skoraði sigurmark Spánverja með marki úr vítaspyrnu á 71. mínútu.

Norska pressan gagnrýndi leikmenn liðsins eftir tapið og þá sérstaklega Håvard Nordtveit, varnarmann liðsins, en Lagerbäck fannst gagnrýnin á Nordveit afar ósanngjörn. „Ég legg það ekki í vana minn að lesa það sem þið skrifið eftir leikina okkar en ég gerði það í gær þar sem spurningar ykkar eftir leikinn gegn Spánverjum komu mér mikið á óvart,“ sagði Lagerbäck á blaðamannafundi norska liðsins í dag en Noregur mætir Svíum í F-riðli undankeppninnar á þriðjudaginn næstkomandi.

„Mitt starf er að vinna knattspyrnuleiki og búa til lið. Ég ber fulla virðingu fyrir ykkar starfi en stundum snýst blaðamennskan meira um auglýsingar en ritstörf. Gagnrýni ykkar á Nordtveit var ósanngjörn. Hann átti einn sinn besta leik að mínu mati en gerði ein mistök og allt í einu er hann ekki nægilega góður til að spila með landsliðinu. Ykkar starf er kannski að rífa leikmenn niður en mitt starf snýst um að byggja leikmennina upp og gera þá betri.“

„Ég sá leikinn gegn Spánverjum með allt öðrum augum en þessi gagnrýni ykkar kemur mér alls ekki á óvart. Sænska- og nígeríska pressan voru svona líka en á Íslandi gera þeir hlutina öðruvísi. Á Íslandi vinna blaðamennirnir eins og þeir gerðu í gamla daga. Þeir eru forvitnir um það hvernig fótboltinn virkar og þeir reyna að skilja hlutina frá okkar sjónarhorni. Þið gerið það eflaust líka en þið viljið frekar vinna fyrir ykkar atvinnuveitendur,“ sagði Lagerbäck pirraður. 

mbl.is