Ronaldo meiddist og Portúgal missteig sig

Cristiano Ronaldo átti ekki gott kvöld.
Cristiano Ronaldo átti ekki gott kvöld. AFP

Evrópumeistarar Portúgals eru aðeins með tvö stig eftir tvo leiki í B-riðli í undankeppni EM karla sem fram fer árið 2020. Portúgalar gerðu 1:1-jafntefli við Serbíu á heimavelli í kvöld. 

Dusan Tadic kom Serbíu yfir með marki úr víti strax á sjöundu mínútu. Cristiano Ronaldo þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir hálftíma, en Portúgalar voru sterkari án hans því jöfnunarmarkið kom ellefu mínútum síðar. Það gerði Danilo Pereira. 

Portúgalar voru miklum mun sterkari það sem eftir lifði leiks og fengu nokkur færi til að skora sigurmarkið í síðari hálfleik, en allt kom fyrir ekki. 

Úkraína er á toppi riðilsins með fjögur stig eftir nauman 2:1-útisigur á Lúxemborg, 2.1. David Turpel kom Lúxemborg yfir á 34. mínútu en Viktor Tsygankov jafnaði á 40. mínútu.

Staðan var 1:1 þangað til í uppbótartíma en þá skoraði Gerson Rodrigues sjálfsmark og 2:1 varð niðurstaðan. 

Úkraína er í efsta sæti með fjögur stig, Lúxemborg í öðru með þrjú stig og Portúgal í þriðja sæti með aðeins tvö stig. 

mbl.is