Ætlar ekki syngja þjóðsönginn

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. AFP

Svíinn Lars Lagerbäck, fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og núverandi landsliðsþjálfari Norðmanna, mætir löndum sínum í undankeppni EM í kvöld en Norðmenn fá Svía í heimsókn á Ullevål-leikvanginn í Ósló.

Þetta er í fyrsta sinn sem Lagerbäck stjórnar liði gegn Svíum í mótsleik. Norðmenn töpuðu fyrir Spánverjum 2:1 í fyrsta leik sínum í undankeppninni en Svíar höfðu betur gegn Rúmenum 2:1.

„Ég held að við fáum að sjá tvö jöfn lið eigast við. Ef við förum inn í leikinn með rétt viðhorf þá tel ég að við eigum góða möguleika á að vinna Svíana,“ sagði Lagerbäck við fréttamenn í gær.

Þegar Lagerbäck var spurður að því hvort hann ætli að syngja þjóðsöng Svíþjóðar sagði hann:

„Nei ég held að ég geri það ekki en ég mun sýna honum virðingu eins og ég geri alltaf með gestaliðinu.“

„Ég hef bara mætt Svíum sem þjálfari Noregs og Íslands í vináttuleikjum og þeir eru svolítið öðruvísi,“ sagði Lagerbäck.

Norðmenn eru ósigraðir á Ullevål undir stjórn Lagerbäck. Þeir hafa unnið sjö leiki og gert tvö jafntefli.

mbl.is