Félag landsliðsmanns að verða gjaldþrota

Frederik Schram.
Frederik Schram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Danska knattspyrnufélagið Roskilde er í miklum fjárhagserfiðleikum og gæti það verið lýst gjaldþrota á næstu vikum. Félagið biðlar nú til stuðningsmanna sinna um að leggja sitt af mörkum og lána kaupsýslumanninum Carsen Salomonsson fé svo hann geti keypt og bjargað Hróarskeldufélaginu. 

Félagið skuldar um 3,5 milljónir danska króna og hefur það aðeins frest til 28. mars til að afla sér fjármagns og koma í veg fyrir gjaldþrot. 

Fari svo að Roskilde verði gjaldþrota, munu allir leikmenn og þjálfarar missa vinnuna, þar á meðal íslenski landsliðsmarkmaðurinn Frederik Schram, sem var m.a. í HM-hópi Íslands í Rússlandi. 

Að öllum líkindum yrði félagið dæmt niður í E-deildina, en það er sem stendur í fallbaráttu í B-deildinni. Frederik þekkir þessa stöðu betur en margir, því hann var í leikmannahópi Vestsjælland er það var lagt niður árið 2015. 

mbl.is