Þekki líkama minn fullkomlega

Hugað að meiðslum Cristiano Ronaldo í gærkvöld.
Hugað að meiðslum Cristiano Ronaldo í gærkvöld. AFP

„Ég er ekki áhyggjufullur því ég þekki líkama minn fullkomlega,“ sagði Cristiano Ronaldo eftir leik Portúgala og Serba í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í gær.

Ronaldo, sem var að spila sinn annan leik með portúgalska landsliðinu frá því á HM í fyrra, þurfti að fara af leikvelli eftir hálftímaleik en hann tognaði.

„Ég er alveg rólegur því ég veit að ég verði orðinn góður af þessum meiðslum eftir eina til tvær vikur. Ég vil vera í landsliðinu í næstu leikjum. Ég var fjarverandi frá því í átta mánuði þar sem ég þurfti tíma fyrir sjálfan mig,“ sagði Ronaldo.

Portúgalar hafa ekki byrjað undankeppnina með neinum glæsibrag en þeir hafa gert jafntefli í tveimur fyrstu leikjum sínum.

Ronaldo gæti orðið í kapphlaupi að ná sér góðum af meiðslunum fyrir fyrri leik Juventus og Ajax í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem fram fer 10. apríl.


mbl.is