Zlatan tjáir sig um íslenska landsliðið

Zlatan Ibrahimovic í leik með LA Galaxy.
Zlatan Ibrahimovic í leik með LA Galaxy. AFP

Zlatan Ibrahimovic, einn vinsælasti sænski knattspyrnumaður sögunnar, ræddi við veðbankann Bethard um Erik Hamrén, landsliðsþjálfara Íslands, og Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands og núverandi þjálfara Norðmanna. 

Var hann spurður hvers vegna Lagerbäck næði betri úrslitum með bæði sænska og íslenska landsliðið, en Hamrén tók við sænska liðinu af Lagerbäck á sínum tíma og gekk ekki sérlega vel. 

„Þeir eru báðir góðir stjórar. Þeir eru mismunandi persónuleikar. Lagerbäck er mikið fyrir taktík og hann fylgir hlutunum alla leið ef hann ákveður eitthvað á meðan Hamrén er opnari fyrir breytingum. 

Lagerbäck var með mikið betra landslið undir höndunum heldur en Hamrén hjá Svíþjóð og það sama er að gerast með Ísland. Árangur Íslands síðustu ár er ekki eðlilegur, núna eru úrslitin að verða venjuleg aftur. Venjuleg íslensk úrslit,“ sagði Zlatan, sem vonar að Hamrén vegni vel. 

„Ég er ánægður að hann sé að starfa með íslenska landsliðinu og vona að liðið nái góðum árangri í framtíðinni. Ef ég á að vera sanngjarn þá er Ísland búið að spila erfiða leiki, það er ekki eins og þú vinnir Belgíu á hverjum degi og Svisslendingar eru erfiðir andstæðingar. Þó að Svíar hafi unnið Sviss þá eru þeir samt erfiðir,“ sagði Zlatan. 

mbl.is