Næstyngstur í 400 leiki

Aron Einar Gunnarsson í baráttu við Mateo Kovacic í leiknum …
Aron Einar Gunnarsson í baráttu við Mateo Kovacic í leiknum í gær. AFP

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson náði stórum áfanga á sínum ferli í gær þegar hann lék með Cardiff City gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Aron lék þar sinn 400. deildaleik á ferlinum en hann er aðeins 23. íslenski knattspyrnumaðurinn frá upphafi sem nær því marki og þá er hann sá næstyngsti til að spila 400 leiki. Þar munar hálfu ári á Aroni og methafanum, Ívari Ingimarssyni, sem var hálfu ári yngri þegar hann náði sínum 400. leik snemma árs 2007. Báðir náðu þeir þessu 29 ára gamlir, Aron verður þrítugur eftir þrjár vikur en Ívar lék sinn 400. leik, þá með Reading í ensku úrvalsdeildinni, sjö mánuðum fyrir þrítugsafmælið.

Aron og Ívar eiga það sameiginlegt að hafa spilað stóran hluta af sínum ferli í ensku B-deildinni þar sem leikjafjöldinn er meiri en í flestöllum öðrum deildum, eða 46 á hverju tímabili. Aron er að ljúka sínu ellefta tímabili á Englandi og þar af eru níu tímabil í B-deildinni.

Af þessum 400 leikjum hefur Aron leikið 266 með Cardiff City, 122 með Coventry City, 11 með Þór á Akureyri og einn með AZ Alkmaar í Hollandi. Þá eru 344 af þessum 400 leikjum í ensku B-deildinni.

Aron hefur að auki leikið 83 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og 34 leiki fyrir yngri landsliðin. Að meðtöldum bikarleikjum og öðrum mótsleikjum er hann kominn með um eða yfir 550 opinbera leiki á sínum ferli, tæplega þrítugur að aldri.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert