Tottenham refsaði City fyrir vítaklúður

Harry Kane fór meiddur af velli hjá Tottenham eftir þessa …
Harry Kane fór meiddur af velli hjá Tottenham eftir þessa tæklingu Fabian Delph. AFP

Tottenham vann virkilega sterkan 1:0-sigur á Manchester City þegar liðin mættust í fyrri leik þeirra í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Leikurinn var dramatískur í meira lagi.

City fékk vítaspyrnu strax á 12. mínútu, en eftir að hafa skoðað myndbandsupptökur dæmdi dómari leiksins víti á Danny Rose fyrir að handleika boltann innan teigs. Sergio Agüero fór á punktinn, en Hugo Lloris varði vítaspyrnu hans og staðan því enn markalaus og var það í hálfleik.

Á 58. mínútu fór Harry Kane, lykilmaður Tottenham, meiddur af velli. Hann meiddist þá á ökkla eftir samstuð við Fabian Delph. Það kom þó ekki að sök, því á 78. mínútu skoraði Heung-Min Son sigurmark Tottenham en það var ekki síður dramatískt.

Son fékk boltann hægra megin í teignum en virtist vera að missa hann út fyrir endalínu. Hann hélt honum hins vegar í leik, náði að koma sér í skotfæri og koma boltanum fram hjá Ederson, sem var búinn að fá aðhlynningu vegna meiðsla fyrr í leiknum. Dómari leiksins skoðaði atvikið á myndbandi áður en markið var dæmt gilt, en dæmdi það að boltinn hafi verið í leik allan tímann.

City reyndi að jafna á lokamínútunum en þrátt fyrir þunga pressu gekk það ekki og 1:0 sigur Tottenham staðreynd. Liðin mætast í síðari leiknum á Etihad-leikvanginum í Manchester 17. apríl.

Í hinum leik kvöldsins vann Liverpool 2:0-sigur á Porto, en umfjöllun um hann má lesa HÉR.

Tottenham 1:0 Man. City opna loka
90. mín. +6. Aukaspyrna inn á vítateig Tottenham en Lloris kýlir frá. Var þetta síðasta tækifæri City?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert