Barcelona óttast Manchester United

Ernesto Valverde og Ole Gunnar Solskjær mætast annað kvöld.
Ernesto Valverde og Ole Gunnar Solskjær mætast annað kvöld. AFP

Ernesto Valverde, knattspyrnustjóri Barcelona, viðurkennir að sínir menn óttast liðsandann sem ríkir hjá Manchester United. Liðin mætast í Meistaradeild Evrópu í Barcelona annað kvöld. 

Barcelona er með 1:0-forskot í einvíginu eftir sigur á Old Trafford í síðustu viku. United fór hins vegar áfram gegn PSG í 16-liða úrslitum, þrátt fyrir 2:0-tap á heimavelli í fyrri leik liðanna.

„Við óttumst liðsandann þeirra og við berum mikla virðingu fyrir þeim," sagði Valverde á blaðamannafundi í dag. 

„Við verðum að eiga mjög góðan leik til að fara áfram. United er búið að vinna þrjá af fjórum útileikjum sínum í keppninni og tvo af þeim á lokamínútunum. Við verðum að passa það," bætti Valverde við. 

Lionel Messi verður klár í slaginn, en hann lék ekki með Barcelona um helgina og blæddi úr honum eftir högg í fyrri leiknum við United. „Honum var smá brugðið en það er í lagi með hann og hann verður klár," sagði Valverde enn fremur. 

mbl.is