„Fjandans VAR“

Fernandinho var í sárum eftir leik City og Tottenham í …
Fernandinho var í sárum eftir leik City og Tottenham í Meistaradeildinni í gær. AFP

Fernandinho, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, var ómyrkur í máli eftir að Manchester City féll úr leik í Meistaradeild Evrópu í gær. City-menn héldu að þeir væru á leið í undanúrslit keppninnar þegar Raheem Sterling skoraði fimmta mark liðsins í uppbótartíma en leiknum lauk með 4:3-sigri City.

Markið var hins vegar réttilega dæmt af vegna rangstöðu eftir myndbandsdómgæslu og Tottenham fer því áfram í undanúrslitin á kostnað City, á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Leikmenn City voru í sárum eftir leikinn enda héldu þeir í nokkrar mínútur að þeir væru á leiðinni í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

Fernandinho mætti á opið blaðamannasvæði eftir leikinn og hafði lítið að segja. „Fjandans VAR!“ sagði brasilíski miðjumaðurinn stuttorður og gekk í burtu. City á ennþá möguleika á því að vinna tvo titla til viðbótar á leiktíðinni en liðið er komið í úrslit ensku bikarkeppninnar og þá er City í harðri baráttu við Liverpool um enska úrvalsdeildartitilinn.

mbl.is