„Ekki vanir að mæta liði eins og okkur“

James Milner er spenntur fyrir undanúrslitum Meistaradeildarinnar þar sem Liverpool ...
James Milner er spenntur fyrir undanúrslitum Meistaradeildarinnar þar sem Liverpool mætir Barcelona. AFP

James Milner, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er spenntur fyrir leikjum liðsins gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Milner er bjartsýnn fyrir viðureignina en fyrri leikur liðanna fer fram á Nývangi í Barcelona þann 1. maí næstkomandi.

„Þeir eru með frábært lið og það er alltaf erfitt að fara til Spánar og spila á Nývangi. Að sama skapi þá eru þeir ekki vanir að mæta liði eins og okkur og þeir hafa ekki oft spilað gegn liði eins og okkur,“ sagði Milner í samtali við Liverpool Echo.

„Nývangur er frábær leikvangur með frábæra stuðningsmenn og þetta er erfiður völlur. Þetta verður alltaf gríðarlega erfitt og við þurfum að eiga okkur besta leik ef við ætlum okkur að ná í úrslit. Að sama skapi höfum við mætt sterkum liðum í Meistaradeildinni, undanfarin ár, og við mætum til Spánar fullir sjálfstrausts,“ sagði Milner.

mbl.is