Koulibaly kostar 130 milljónir punda

Kalidou Koulibaly er með samning við Napoli sem gildir til …
Kalidou Koulibaly er með samning við Napoli sem gildir til ársins 2023. AFP

Kalidou Koulibaly, varnarmaður ítalska knattspyrnufélagsins Napoli, er með klásúlu í samningi sínum sem hljóðar upp á 130 milljónir punda. Þetta staðfesti Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Napoli, á blaðamannafundi í dag.

Þá fullyrti Ancelotti að miðvörðurinn væri ekki til sölu en samningur hans við Napoli rennur út sumarið 2023 og Napoli er því ekki að stressa sig á því að selja leikmanninn. Koulibaly hefur verið sterklega orðaður við Manchester United í ensku úrvalsdeildinni en félagið leitar nú að miðverði.

Þá hefur miðvörðurinn einnig verið orðaður við stórlið Barcelona og Real Madrid en sumarið 2021 virkast klásúlan í samningi hans um að hann geti yfirgefið Ítalíu fyrir 130 milljónir punda. Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool, er dýrasti varnarmaður heims en enska félagið borgaði Southampton 75 milljónir punda fyrir leikmanninn í janúar á síðasta ári.

Koulibaly er 27 ára gamall en sumarið 2021 verður hann orðinn þrítugur ára og því ólíkegt að eitthvað félag sé tilbúið að borga 130 milljónir punda fyrir hann þá. Koulibaly hefur byrjað 30 leiki í ítölsku A-deildinni á þessari leiktíð þar sem hann hefur skorað tvö mörk en hann á að baki 32 landsleiki fyrir landslið Senegal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert