Mourinho ráðleggur Liverpool

Liverpool mætir Lionel Messi og liðsfélögum hans í Barcelona í …
Liverpool mætir Lionel Messi og liðsfélögum hans í Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. AFP

José Mourinho, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, hefur sent varnarorð til Liverpool fyrir leiki liðsins gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Liverpool mætir Barcelona í fyrri leik liðanna á Nývangi 1. maí næstkomandi en síðari leikur liðanna fer fram á Anfield 7. maí.

Lionel Messi, fyrirliði Barcelona, hefur verð í miklu stuði á þessari leiktíð en hann hefur skorað 45 mörk í öllum keppnum og þá var hann stórkostlegur í einvíginu gegn Manchester United í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar þar sem hann skoraði tvívegis í seinni leiknum á Spáni en einvíginu lauk með 4:0-sigri Barcelona.

„Það er auðvelt að skilja Messi en það er ekki auðvelt að stoppa hann. Messi tekur sér iðulega stöðu á hægri vængnum en er duglegur að sækja inn á miðjuna og það gerir hann mjög erfiðan viðureignar. Ég hef aldrei verið hrifinn af því að setja einhvern til höfuðs honum og láta hann elta Messi allan leikinn. Ef þú ætlar að stoppa hann þarftu að setja upp varnarbúr sem hann má alls ekki sleppa úr,“ sagði Mourinho í samtali við rússneska fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert