Niðurgreiða miðaverð fyrir stuðningsmennina

Liverpool mætir Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Liverpool mætir Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur ákveðið að koma til móts við þá stuðningsmenn félagsins sem ætla sér að fara til Spánar og sjá fyrri leik Barcelona og Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Fyrri leikur liðanna fer fram á Spáni þann 1. maí og seinni leikurinn fer fram á Anfield, 7. maí.

Barcelona ætlar sér að rukka stuðningsmenn Liverpool 119 evrur fyrir miðann en það samsvarar rúmlega 16.000 íslenskum krónum. Liverpool reyndi að fá forráðamenn Barcelona til þess að lækka miðaverðið en þeir neituðu að koma til móts við enska félagið. 

Enska félagið hefur því brugðið á það ráð að rukka stuðningsmenn Barcelona um 119 evrur líka en 31 evra af hverjum seldum miða, rennur til stuðningsmanna liðsins, sem ætla sér að fara á útileikinn á Nývangi. Stuðningsmenn Liverpool eru því að borga 88 evrur fyrir miðann á Nývangi þegar allt kemur til alls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert