Real kynnir Hazard á næstu vikum

Spænskir fjölmiðlar fullyrða að það sé eingöngu tímaspursmál hvenær Real …
Spænskir fjölmiðlar fullyrða að það sé eingöngu tímaspursmál hvenær Real Madrid tilkynnir um kaup sín á Belganum. AFP

Knattspyrnufélögin Real Madrid og Chelsea hafa náð samkomulagi um kaupverðið á Eden Hazard, stjörnuleikmanni Chelsea, en það er spænski miðillinn AS sem greinir frá þessu. Hazard hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid, undanfarin ár, en alltaf haldið tryggð við Chelsea.

Samningur Belgans við Chelsea rennur út sumarið 2020 og Hazard hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við félagið. Það er talið næsta víst að hann yfirgefi London í sumar en Real Madrid er sagt tilbúið að borga í kringum 85 milljónir punda fyrir leikmanninn.

AS greinir frá því  að Real Madrid ætli sér ekki að tilkynna félagaskipti Hazard fyrr en baráttu Chelsea um Meistaradeildarsæti er lokið. Chelsea situr sem stendur í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 66 stig, jafn mörg stig og Arsenal sem er í fjórða sætinu, en Chelsea hefur spilað einum leik meira.

Þá er Chelsea einnig í harðri baráttu við Manchester United sem er í sjötta sæti deildarinnar með 64 stig eftir 33 leiki en Chelsea á eftir að mæta Burnley, Manchester United, Watford og Leicester City í lokaleikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Chelsea gæti einnig tryggt sér sæti í Meistaradeildinni með sigri í Evrópudeildinni þar sem liðið er komið í undanúrslit keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert