Takmörkuð reynsla flækist ekki fyrir

Robbie Fowler.
Robbie Fowler. AFP

Íslandsvinurinn Robbie Fowler, fyrrverandi framherji Liverpool og enska landsliðsins, segir að takmörkuð reynsla sín sem þjálfari eða knattspyrnustjóri skipti ekki máli nú þegar hann hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Brisbane Roar í Ástralíu. 

Fowler er 44 ára gamall skrifaði undir tveggja ára samning við ástralska félagið. Verður þetta í annað sinn sem Fowler gefst tækifæri til að stýra meistaraflokksliði. Áður stýrði hann Muangthong United í Tælandi tímabilið 2011-2012. 

„Þótt ég búi ekki yfir mikilli reynslu eins og margir aðrir þá þýðir það ekki sjálfkrafa að ég muni standa mig illa. Þú gætir ráðið Jürgen Klopp eða Pep Guardiola en það þýðir ekki endilega að þeir myndu standa sig vel hjá Brisbane. Ég átti fínan feril sem leikmaður. Nú er tímabært að hefja stjóraferilinn fyrir alvöru,“ er haft eftir Fowler hjá BBC. 

Fowler tekur við starfinu af Darren Davies sem stýrði liðinu tímabundið síðan í desember. Áður var Ástralinn John Aloisi stjóri liðsins en hann lék í eina tíð með Coventry. 

Brisbane er í næstneðsta sæti deildarinnar og leikur sinn síðasta leik á þessu keppnistímabili gegn Adelaide United á fimmtudag. 

Knattspyrnan í Ástralíu hefur af og til ratað í heimspressuna síðustu mánuðina en um tíma var útlit fyrir að sprettharðasti maður sögunnar, Usain Bolt, myndi spreyta sig í deildinni en af því varð ekki. 

Robbie Fowler í Íslandsheimsókn árið 2015.
Robbie Fowler í Íslandsheimsókn árið 2015. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is