Ætlar að fagna gegn Liverpool

Luis Suárez er spenntur að mæta sínum fyrrverandi félögum í …
Luis Suárez er spenntur að mæta sínum fyrrverandi félögum í Liverpool. AFP

Luis Suárez, fyrrverandi leikmaður Liverpool og núverandi framherji spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, er spenntur fyrir því að mæta aftur á sinn gamla heimavöll. Liverpool og Barcelona mætast í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu en fyrri leikur liðanna fer fram á Nývangi 1. maí og seinni leikurinn á Anfield 7. maí.

Suárez þekkir vel til á Anfield en hann lék með Liverpool á árunum 2011 til ársins 2014 þar sem hann skoraði 69 mörk í 110 leikjum. „Ég hef upplifað frábæra tíma alls staðar þar sem ég hef spilað. Hjá Liverpool spilaði ég á stóru sviði og varð að þeim leikmanni sem ég er í dag. Það verður sérstakt að koma aftur á Anfield og ég ætla, aldrei þessu vant, að taka fjölskylduna með í útileikinn,“ sagði Suárez í samtali við Daily Mail.

„Það er fínt að geta komið því að hversu óendanlega þakklátur ég er Liverpool fyrir allt það sem félagið gerði fyrir mig og fjölskyldu mína. Að sama skapi vita knattspyrnuáhugamenn hver ég er og hvernig ég virka á vellinum. Þegar dómarinn flautar til leiks er ekki til neitt sem heitir vinskapur eða annað slíkt. Ég er leikmaður Barcelona og ég mun gera allt til þess að tryggja liðinu sigur, þar með talið fagna ef ég skora,“ sagði Suárez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert