Casillas útskrifaður af sjúkrahúsi

Iker Casillas yfirgefur sjúkrahúsið í Porto í dag ásamt eiginkonu …
Iker Casillas yfirgefur sjúkrahúsið í Porto í dag ásamt eiginkonu sinni. AFP

Iker Casillas markvörður Porto var í dag útskrifaður af sjúkrahúsi en þar hefur hann dvalið undanfarna daga eftir að hafa fengið hjartaáfall á æfingu Porto-liðsins.

Casillas, sem er 37 ára gamall, segir óvíst hvað taki við hjá sér á knattspyrnuferlinum en það muni skýrast á næstu vikum eða mánuðum.

„Mikilvægast er að ég er hér og get spjallað við ykkur en ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er erfitt að tala um þetta en til allrar hamingju er ég í lagi og ég er mjög þakklátur fyrir það og eins fyrir allar kveðjurnar sem ég hef fengið. Mér líður miklu betur. Ég mun taka mér góða hvíld næstu vikurnar eða mánuðina,“ sagði Casialls við fréttamenn í dag.

Casillas hefur spilað með Porto frá árinu 2015 en fram að því spilaði hann yfir 700 leiki með Real Madrid. Þá lék hann 167 landsleiki fyrir Spán og varð heimsmeistari 2010 og varð í tvígang Evrópumeistari með spænska landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert