Liverpool í úrslit eftir stórsigur

Georginio Wijnaldum fagnar ásamt Jordan Henderson eftir að hafa skorað …
Georginio Wijnaldum fagnar ásamt Jordan Henderson eftir að hafa skorað þriðja mark Liverpool í kvöld. AFP

Villtustu draumar stuðningsmanna Liverpool rættust í kvöld þegar liðið vann upp þriggja marka forskot Barcelona í síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu karla í knattspyrnu á Anfield. Liverpool leikur til úrslita gegn Ajax eða Tottenham. 

Barcelona hafði gott forskot eftir 3:0 sigur í fyrri leik liðanna á Nývangi en það fauk út um gluggann í kvöld þegar Liverpool sigraði 4:0 á Anfield. 

Úrslitin eru líklega lygileg í hugum margra sökum styrks FC Barcelona og þeirrar stöðu sem upp var komin í rimmu liðanna. Ofan á það bættist að Liverpool gat ekki teflt fram Mohamed Salah né Firmino. Líklega var það bara eins gott fyrir liðið. 

Markaskorarar liðsins í kvöld voru þeir Divock Origi og Georginio Wijnaldum sem skoruðu tvö mörk hvor. Ekki beinlínis líklegustu mennirnir fyrir fram til að fella Barcelona en það varð engu að síður staðreyndin. 

Liverpool fékk óskabyrjun þegar Origi skoraði strax á 7. mínútu. Eftir nokkuð opinn fyrri hálfleik þar sem bæði lið fengu fín færi var staðan 1:0. 

Wijnaldum kom inn á sem varamaður fyrir Robertson í upphafi síðari hálfleiks. Hann var ekki lengi að gerbreyta stöðunni. Skoraði tvívegis á tveggja mínútna kafla á 54. og 56. mínútu. Algert kjaftshögg fyrir leikmenn Barcelona. Sigurmarkið gerði Origi á 79. mínútu og það var stórmerkilegt miðað við undanúrslitaleik í Evrópukeppni. Leikmenn Barcelona voru ekki tilbúnir til að verjast hornspyrnu og Origi stóð einn á markteig. Alexander-Arnold sem tók hornið veitti því athygli og renndi boltanum til Origi sem skoraði og gerði út um rimmuna.

Liverpool leikur þar með til úrslita í keppninni annað árið í röð en í fyrra tapaði liðið í úrslitum fyrir Real Madrid.  

Divock Origi fær að skora sigurmarkið einns og óvaldaður. Þakkaði …
Divock Origi fær að skora sigurmarkið einns og óvaldaður. Þakkaði hann kærlega fyrir sig. AFP
Liverpool 4:0 Barcelona opna loka
90. mín. Xherdan Shaqiri (Liverpool) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert