Wijnaldum reiður út í Klopp

Georginio Wijnaldum fagnar þriðja marki Liverpool og öðru marki sínu.
Georginio Wijnaldum fagnar þriðja marki Liverpool og öðru marki sínu. AFP

Varamaðurinn Georginio Wijnaldum sem skoraði tvívegis fyrir Liverpool gegn Barcelona í kvöld tjáði fjölmiðlamönnum að hann hafi verið allt annað en sáttur við knattspyrnustjórann Jürgen Klopp fyrir leikinn sögulega í kvöld. 

„Ég var virkilega reiður út í stjórann fyrir að hafa mig á varamannabekknum. Ég reyndi bara að hjálpa liðinu og er ánægður með að hafa getað gert það með því að skora tvö,“ sagði Wijnaldum þegar niðurstaðan var ljós en Liverpool leikur til úrslita eftir 4:0 sigur í kvöld. 

„Ótrúleg úrslit. Eftir leikinn á Spáni vorum við samt sem áður vongóðir um að við gætum skorað fjögur mörk og unnið 4:0. Fólk efaðist um það og taldi það ekki gerlegt. En við sýndum enn og aftur að ekkert er ómögulegt í knattspyrnu.“

mbl.is