Aftur flautað af vegna óláta

Rúnar Már Sigurjónsson í leik með Grasshopper.
Rúnar Már Sigurjónsson í leik með Grasshopper. Ljósmynd/Grasshopper

Flauta þurfti af leik Luzern og Grasshopper í svissnesku úrvalsdeildinni í fótbolta á 66. mínútu vegna óláta stuðningsmanna Grasshopper. Er þetta í annað skipti á tveimur mánuðum sem ekki næst að klára leik vegna óláta í stuðningsmönnum félagsins. 

Luzern komst í 4:0 á 66. mínútu og voru leikmenn Grasshopper auk þess manni færri þar sem Marko Basic fékk beint rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks. Það fór illa í stuðningsmenn Grasshoppers sem stilltu sér upp á hliðarlínunni og hótuðu að fara inn á völlinn.

Þrátt fyrir tilraunir lögreglu og leikmanna til að róa stuðningsmennina niður, létu þeir ekki segjast, og neyddist Alessandro Dudic, dómari leiksins, því að flauta af. 

Rúnar Már Sigurjónsson var í byrjunarliði Grasshopper og var hann enn inn á vellinum þegar atvikið átti sér stað. Líklegt þykir að úrslitin verði látin standa og Grasshopper tapi 4:0. 

Liðið er þegar fallið úr deildinni og kom síðasti sigurleikurinn 25. nóvember á síðasta ári. 

Lögreglumenn koma í veg fyrir að stuðningsmenn Grasshopper komist inn …
Lögreglumenn koma í veg fyrir að stuðningsmenn Grasshopper komist inn á völlinn. Ljósmynd/fcl.ch
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert