Holland góður stökkpallur fyrir framtíðina

Elías Már Ómarsson gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu …
Elías Már Ómarsson gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu fyrir Excelsior í hollensku úrvalsdeildinni um helgina. Ljósmynd/@excelsiorrdam

„Þetta var í raun bara fyrsti leikurinn sem ég fékk að byrja undir stjórn nýs þjálfara sem gerði þetta ennþá sætara fyrir vikið,“ sagði Elías Már Ómarsson, leikmaður Excelsior í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.

Elías skoraði þrennu gegn Heracles í deildinni um helgina og tryggði liði sínu sigur með marki í uppbótartíma, 5:4, en Elías hefur ekki spilað jafn marga leiki í deildinni vetur og hann hefði sjálfur kosið eftir að hafa komið til hollenska félagsins frá Gautaborg í Svíþjóð í ágúst á síðasta ári.

„Persónulega finnst mér að ég hefði átt að byrja mun fleiri leiki á tímabilinu en ég hef gert. Tímabilið hjá félaginu hefur verið afar dapurt og það hefur lítið sem ekkert gengið upp hjá liðinu. Það hefur þess vegna verið ennþá meira svekkjandi að þurfa að sitja á bekknum og fá ekki tækifæri til þess að hjálpa liðinu að vinna einhverja leiki.“

Elías hefur byrjað 20 leiki fyrir Excelsior á tímabilinu og skorað í þeim 6 mörk og lagt upp önnur tvö, en auk þess komið tvisvar inná sem varamaður. Fyrir leikinn um helgina spilaði hann síðast með liðinu í 1:0-tapi gegn Heerenveen í lok mars.

Elías Már fagnar marki sínu gegn Heracles með liðsfélögum sínum …
Elías Már fagnar marki sínu gegn Heracles með liðsfélögum sínum um helgina. Ljósmynd/@excelsiorrdam

Erfitt að vinna sér inn traust

„Í sannleika sagt þá hef ég ekki hugmynd um af hverju ég hef fengið að spila svona lítið. Við erum vissulega með góða framherja í okkar liði og þjálfarinn virðist hafa haft meiri trú á þeim. Það er erfitt að vinna sér inn traust þegar þjálfarinn virðist treysta öðrum leikmönnum betur en ég haf alltaf lagt mig 110% fram á öllum æfingum, allt tímabilið. Það hefur því oft verið erfitt andlega að fara í leiki, vitandi það, að ég er ekki að fara spila og ekki einu sinni að fara koma inn á. Að sama skapi hef ég reynt að nýta þau tækifæri vel sem ég hef fengið.“

Ricardo Munis tók við stjórnartaumunum hjá Excelsior af Adrie Poldervaart í apríl á þessu ári og Elías segir að nýr þjálfari hafi komið inn með nýjar áherslur.

Elías Már Ómarsson í leik með U21 árs landsliði Íslands …
Elías Már Ómarsson í leik með U21 árs landsliði Íslands gegn Frakklandi. AFP

Líður vel í Hollandi

„Hann er öðruvísi en aðrir þjálfarar sem ég hef verið með. Hann er með góðar æfingar og hann leggur mikið upp úr því að menn nýti hæfileika sína inn á vellinum. Hann hvetur okkur til þess að vera duglegir að taka menn á, þegar tækifæri gefst til, og hann vill spila hápressu sem hentar liðinu mjög vel. Við vorum ekki að hlaupa nægilega mikið, áður en hann tók við liðinu, og hann hefur einblínt mikið á það að koma okkur í betra form.“

Excelsior er á leið í umspil um laust sæti í hollensku úrvalsdeildinni að ári þar sem liðið mætir liði úr B-deildinni en Elías, sem er 24 ára gamall, ítrekar að hann sé mjög sáttur í Hollandi.

„Við eigum einn leik eftir í deildinni á móti AZ Alkmaar og við ætlum að fara inn í þann leik af heilum hug. Vonandi getum við náð í góð úrslit og tekið þau úrslit inn í fallumspilið því liðið þarf á sjálfstrausti að halda. Við ætlum okkur að halda sæti okkar í deildinni og ég hef fulla trú á því að það takist. Annars er mjög sáttur í Hollandi og deildin hérna er mjög sterk. Þetta er frábær deild til þess að sýna mig og sanna og markmiðið er að spila í sterkari deild í framtíðinni. Þrátt fyrir að hafa spilað lítið á tímabilinu þá sé ég ekki eftir því að hafa komið hingað og ég ætla mér stóra hluti í framtíðinni,“ sagði Elías Ingi í samtali við mbl.is.

mbl.is