Glódís og félagar lögðu meistarana

Glódís Perla Viggósdóttir fagnaði mikilvægum sigri í kvöld.
Glódís Perla Viggósdóttir fagnaði mikilvægum sigri í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir og samherjar í Rosengård komust í kvöld á topp sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með því að sigra meistarana Piteå, 2:0, í sannkölluðum stórleik í Malmö.

Glódís lék allan leikinn fyrir Rosengård en þær Johanna Rytting-Kaneryd og nígeríska landsliðskonan Anam Imo skoruðu mörkin í seinni hálfleiknum. Rosengård er komið með 13 stig í efsta sætinu eftir sex umferðir. Piteå er með 10 stig. 

Anna Rakel Pétursdóttir og félagar í Linköping misstu toppsætið með 1:1 jafntefli gegn Íslendingaliðinu Kristianstad á útivelli. Anna lék þar í 78 mínútur fyrir Linköping sem er með 13 stig, eins og Rosengård og Vittsjö. Sif Atladóttir lék allan leikinn fyrir Kristianstad og Svava Rós Guðmundsdóttir lék í 68 mínútur en þá kom Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir inn á fyrir hana. Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur ellefta árið í röð, er með 8 stig í sjöunda sæti deildarinnar.

Djurgården tapaði í fimmta sinn í fyrstu sex umferðunum, nú 1:3 fyrir Vittsjö á heimavelli. Ingibjörg Sigurðardóttir og Guðrún Arnardóttir léku allan leikinn í vörn Djurgården en markvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir sat á varamannabekknum. Liðið er næstneðst með 3 stig.

Andrea Thorisson lék síðasta hálftímann með Linhamn Bunkeflo sem gerði 2:2 jafntefli við botnlið Kungsbacka á útivelli. Andrea lék með Kungsbacka í B-deildinni í fyrra. Limhamn Bunkeflo er í 10. sæti af 12 liðum með 4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert