Strákarnir hans Inzaghi unnu bikarinn

Simone Inzaghi þjálfari Lazio með bikarinn.
Simone Inzaghi þjálfari Lazio með bikarinn. AFP

Lazio vann ítalska bikarmeistaratitilinn í knattspyrnu í sjöunda sinn í kvöld þegar liðið hafði betur gegn Atalanta 2:0 í úrslitaleik í Róm.

Sergej Milinkovic-Savic og Joaquin Correa skoruðu mörk Lazio á síðustu tíu mínútum leiksins og með sigrinum tryggði Lazio sér sæti í Evrópudeildinni sem það þurfti svo sannarlega á að halda en liðið er í áttunda sæti í ítölsku A-deildinni.

Atalanta, sem sló Ítalíumeistara Juventus úr leik í átta liða úrslitum keppninnar, freistaði þess að vinna bikarkeppnina í annað sinn í sögu félagsins og vinna sinn fyrsta stóra titil frá árinu 1963 en það tókst ekki.

mbl.is