Ajax tvöfaldur meistari

Frenkie de Jong og Donny van de Beek
Frenkie de Jong og Donny van de Beek AFP

Hið skemmtilega lið Ajax, sem var nokkrum sekúndum frá því að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, lauk keppnistímabilinu á góðum nótum í gær. 

Ajax tryggði sér sigur í hollensku deildinni í gær og sigraði því tvöfalt á keppnistímabilinu en liðið hafði áður tryggt sér bikarmeistaratitilinn. Ajax varð nú hollenskur meistari í 34. sinn.

Leikurinn í gær var sá síðasti sem tengiliðurinn Frenkie de Jong spilar fyrir Ajax en Barcelona hefur fest kaup á honum. Greiða Katalónarnir 65 milljónir evra fyrir Hollendinginn. 

Varnarmaðurinn og fyrirliðinn Matthijs de Ligt er einnig sterklega orðaður við Barcelona. Hann er einungis 19 ára gamall. Fari hann einnig frá félaginu velta margir því fyrir sér hvort Ajax geti haldið sama dampi á næsta keppnistímabili. Liðið hefur ekki verið svo nærri því að komast í úrslit Meistaradeildarinnar síðan liðið tapaði þar árið 1996. Ajax fór hins vegar í úrslit Evrópudeildarinnar árið 2017 en tapaði þar fyrir Manchester United. 

Í bikarúrslitaleiknum 5. maí vann Ajax stórsigur á Willen II í úrslitaleiknum 4:0. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert