Aron yfirgefur Werder Bremen

Aron Jóhannsson fagnar marki með Werden Bremen.
Aron Jóhannsson fagnar marki með Werden Bremen. AFP

Þýska knattspyrnuliðið Werder Bremen hefur staðfest að Aron Jóhannsson yfirgefi liðið eftir leiktíðina og verður hann kvaddur fyrir síðasta leik liðsins gegn Leipzig á laugardaginn.

Aron hefur verið sérlega óheppinn með meiðsli frá því hann gekk í raðir Werder Bremen frá hollenska liðinu AZ Alkmaar fyrir fjórum árum.

Aron hefur ekkert komið við sögu með Bremen í deildinni á tímabilinu en á síðustu leiktíð lék hann tólf deildarleiki og skoraði í þeim eitt mark.

„Við munum kveðja Aron fyrir leikinn á laugardaginn. Hann hefur verið mjög óheppinn með meiðsli en hefur aldrei gefist upp og er alltaf í góðu skapi. Hann á skilið góðar kveðjur,“ segir Frank Baumann yfirmaður knattspyrnumála hjá Werder Bremen á twitter-síðu félagsins.

Aron er 28 ára gamall uppalinn Fjölnismaður. Hann hélt út í atvinnumennsku árið 2010 þegar hann gekk í raðir danska liðsins AGF. Þaðan fór hann til AZ Alkmaar og loks Werder Bremen. Aron lék 10 leiki með U21 árs landsliði Ísland og á að baki 19 leiki með bandaríska A-landsliðinu og hefur í þeim skorað 4 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert