Porto vill halda Casillas

Iker Casillas.
Iker Casillas. AFP

Portúgalska knattspyrnuliðið Porto vill halda spænska markverðinum Iker Casillas í sínum röðum en hann var hætt kominn í síðasta mánuði þegar hann fékk hjartaáfall á æfingu liðsins.

„Casillas á enn eitt ár eftir af samningi sínum og við viljum að hann verði áfram hluti af uppbyggingu Porto og ekki bara í eitt ár. Casillas er einn af okkur og hann mun alltaf eiga stað hjá Porto,“ sagði Jorge Nuno Pinto, forseti Porto, í viðtali við portúgalska blaðið O Jogo.

Casillas, sem fagnar 38 ára afmælisdegi sínum á mánudaginn, gekkst undir aðgerð eftir hjartaáfallið þann 1. maí. Hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu fimm dögum síðar og sagði þá við fréttamenn að hann væri heppinn að vera á lífi en hann væri ekki búinn að gera áætlanir um framtíð sína.

Casillas lék 167 leiki með spænska landsliðinu og varð heimsmeistari með því árið 2010 og hampaði Evrópumeistaratitlinum í tvígang. Þá lék hann yfir 700 leiki með Real Madrid en yfirgaf félagið árið 2015 og gekk í raðir Porto.

mbl.is