Yfirlýsing frá PSG vegna Mbappé

Kylian Mbappé var kjörinn bestur í frönsku 1. deildinni og …
Kylian Mbappé var kjörinn bestur í frönsku 1. deildinni og flutti ræðu af því tilefni. AFP

Forráðamenn PSG hafa sent út yfirlýsingu vegna ummæla knattspyrnustjörnunnar Kylian Mbappé í ræðu sem hann flutti í gærkvöld eftir að hafa verið valinn leikmaður ársins í frönsku 1. deildinni.

Mbappé sagði í ræðunni komið að vendipunkti á sínum ferli, hann hefði upplifað margt hjá PSG en teldi tímabært fyrir sig að taka meiri ábyrgð. „Vonandi getur það orðið hjá PSG, það væri afskaplega ánægjulegt. Kannski verður það annars staðar í nýju verkefni,“ sagði Mbappé. Þegar hann var beðinn um að skýra ummæli sín sagðist hann hafa sagt allt sem hann vildi segja en ummælin gáfu þeim orðrómi byr undir báða vængi að hann gæti verið á förum frá PSG.

Í yfirlýsingu frá PSG í dag segir hins vegar meðal annars: „Afar sterkar taugar hafa myndast á milli PSG og Kylian Mbappé síðustu tvö ár og sameiginleg saga okkar heldur áfram á næstu leiktíð.“

mbl.is