FIFA hættir við 48 lið á HM 2022

Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. AFP

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA sendi frá sér tilkynningu í kvöld þar sem tekið var fram að hætt hafi verið við áform um að fjölga þátttökuliðum strax í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Katar árið 2022.

FIFA hefur lengi unnið að því að fjölga þjóðum úr 32 í 48 og stefndi fyrst að því á HM 2026. Hins vegar leitaði sambandið leiða til þess að útfæra slíkt strax á næsta móti í Katar eftir þrjú ár. 

Í tilkynningunni segir hins vegar að hætt hafi verið við þau áform, en sennilega hefði Katar þurft að halda mótið í samvinnu við einhverja nágrannaþjóð sína. Ekki væri heldur nægur tími til þess að skipuleggja slíka breytingu ef Katar ætti eitt að taka á móti þeim fjölda strax eftir þrjú ár.

Tillögu um fjölgun þátttökuþjóða á HM 2022 verður því ekki lögð fyrir þing FIFA sem fer fram 5. júní eins og áætlað var. Enn er þó stefnt að fjölgun á HM 2026.

mbl.is