„Gott fyrir okkur“

Leroy Sané.
Leroy Sané. AFP

Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þjóðverja í knattspyrnu, segir að það yrðu góð tíðindi fyrir landsliðið ef Leroy Sané, leikmaður Englandsmeistara Manchester City, færi til Bayern München í sumar.

Uli Höness, forseti þýska meistaraliðsins Bayern München, hefur staðfest að félagið hafi sett sig í samband við Manchester City um kaup á þýska landsliðsmanninum Leroy Sané.

„Við erum í samningaviðræðum um að fá Sané,“ sagði Höness í viðtali við þýska blaðið Süddeutsche Zeitung en Bayern mun þurfa að greiða á bilinu 70-100 milljónir evra fyrir Sané.

Arjen Robben og Franck Riberý eru á förum frá Bayern og vill þýska liðið fá Sané til að fylla skarðið. Sané er 23 ára gamall og hefur verið í herbúðum Manchester City í þrjú ár.

Hann hefur ekki átt fast sæti í liði City undir stjórn Peps Guardiola og hefur stjóri City ekki verið alls kostar ánægður með framlag Þjóðverjans.

„Bayern er alltaf góður staður til að fara til. Í mínum huga hefur Leroy það þægilegt hjá Manchester City. Ég veit ekki hvað hann er með í huga. Ef af félagaskiptunum verður þá yrði það gott fyrir hann og gott fyrir okkur,“ segir Löw í samtali við þýska blaðið Bild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert