Íhugar alvarlega að yfirgefa Real Madrid

Sergio Ramos.
Sergio Ramos. AFP

Spænskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, íhugi alvarlega að yfirgefa félagið í sumar en hann hefur leikið með liðinu undanfarin tólf ár.

Ramos átti ekki sitt besta tímabil frekar en flestir liðsmanna Real Madrid en liðið endaði í þriðja sæti, 19 stigum á eftir erkifjendunum í Barcelona sem hömpuðu Spánarmeistaratitlinum annað árið í röð.

Ramos er 33 ára gamall og hann ætti ekki að verða í vandræðum með að finna sér lið en meðal þeirra sem sýnt hafa áhuga á að fá miðvörðinn öfluga í sínar raðir eru Manchester United og Paris SG.

Ramos kom til Real Madrid frá Sevilla árið 2007. Hann hefur spilað vel á sjötta hundrað leiki með Madridarliðinu og hefur unnið Spánarmeistaratitilinn með liðinu fjórum sinnum og hefur orðið Evrópumeistari með því jafnoft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert