Alfreð orðaður við Tyrklandsmeistarana

Alfreð Finnbogason skoraði 10 mörk í þýsku 1. deildinni í …
Alfreð Finnbogason skoraði 10 mörk í þýsku 1. deildinni í vetur. AFP

Alfreð Finnbogason, framherji þýska knattspyrnuliðsins Augsburg og íslenska landsliðsins, er í dag orðaður við Tyrklandsmeistara Galatasaray en það eru tyrknesir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Íslendingavaktin greindi fyrst frá málinu en samkvæmt fjölmiðlum í Tyrklandi er Galatasaray tilbúið að borga 6 milljónir evra fyrir íslenska framherjann.

Alfreð er samningsbundinn Augsburg til sumarsins 2020 en íslenski framherjinn reiknar með því að framlengja samning sinn í Þýskalandi á næstu vikum. „Ég á eitt ár eftir af samningi mínum við Augsburg og ég býst við því að spila með félaginu á næstu leiktíð,“ sagði Alfreð í viðtali við þýska fjölmiðla á dögunum.

Íslenski framherjinn hefur verið afar óheppinn með meiðsli, undanfarin tvö tímabil, og byrjaði hann einungis 17 leiki í þýsku 1. deildinni á þessari leiktíð. Þrátt fyrir það skoraði framherjinn 10 mörk og lagði upp 1 í deildinni í vetur en Augsburg endaði í fimmtánda sæti deildarinnar með 32 stig og rétt slapp við fall.

mbl.is