Neymar slæm fyrirmynd fyrir ungu kynslóðina

Kylian Mbappé og Neymar eru báðir orðaðir við brottför frá …
Kylian Mbappé og Neymar eru báðir orðaðir við brottför frá PSG í sumar. AFP

Vicente del Bosque, fyrrverandi knattspyrnustjóri Real Madrid, hefur hvatt sitt fyrrverandi félag til þess að kaupa Kylian Mbppé, sóknarmann franska stórliðsins PSG, í sumar. Mbappé gaf það til kynna á dögunum að hann gæti yfirgefið franska félagið en hann vill vera miðpunktur athyglinnar á næstu leiktíð.

Dýrasti knattspyrnumaður heims, Neymar, er einnig samningsbundinn PSG, en franskir fjölmiðlar telja að annað hvort Neymar eða Mbappé muni yfirgefa Frakkland í sumar þar sem að þeir séu báðir of góðir knattspyrnumenn til þess að deila sviðsljósinu. Neymar hefur einnig verið orðaður við Real Madrid, undanfarin ár, en Del Bosque vill ekki sjá Neymar á Santiago Bernabéu.

„Ég myndi alltaf kaupa Mbappé, frekar en Neymar,“ sagði Del Bosque í samtali við Marca á dögunum. „Neymar er slæm fyrirmynd fyrir ungu kynslóðina og það sést best á því hvernig ungir krakkar henda sér niður í grasið í dag og eru með leikræna tilburði hvað eftir annað, líkt og Neymar er þekkur fyrir á knattspyrnuvellinum,“ sagði Del Bosque sem stýrði Real Madrid á árunum 1999-2003 við góðan orðstír.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert