Ætla að koma enn sterkari til baka

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Knattspyrnustjórinn José Mourinho er óviss um hvar hann mun starfa á næstu leiktíð, en hann gaf það út á dögunum að hann hefði hug á að taka við liði fyrir næsta tímabil. Portúgalinn var síðast stjóri Manchester United, áður en hann var rekinn í desember. 

Mourinho hefur verið orðaður við hin ýmsu störf síðan, þar á meðal Real Madríd, Inter, Celtic, Juventus og PSG. Zinedine Zidane var hins vegar ráðinn stjóri Real á meðan PSG framlengdi samningi sínum við Thomas Tuchel. 

Störfunum fer því fækkandi fyrir Mourinho. „Ég hef enga hugmynd hvað tekur við hjá mér, en ég má ekki láta tilfinningarnar ráða," sagði Mourinho í samtali við Sky Sports. 

„Ég verð að vera skynsamur. Ég verð að hugsa mig vel um og velja rétt. Ég ætla mér að koma enn sterkari til baka," sagði Portúgalinn. 

mbl.is