Arnór dúxaði í lokaumferðinni

Arnór Sigurðsson skoraði sjö mörk fyrir CSKA Moskvu í vetur, …
Arnór Sigurðsson skoraði sjö mörk fyrir CSKA Moskvu í vetur, meðal annars eitt gegn Real Madrid. AFP

Arnór Sigurðsson fékk hæstu einkunn fyrir frammistöðu sína í lokaumferð rússnesku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, hugsanlega í síðasta leik sínum með CSKA Moskvu.

Arnór fékk sem sagt 10 í einkunn hjá tölfræðimiðlinum WhoScored en hann skoraði eitt mark og lagði upp annað fyrir Hörð Björgvin Magnússon í 6:0-sigri CSKA á Krilia Sovetov. CSKA endaði í 4. sæti og leikur í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

Arnór skoraði fimm mörk í 21 leik í rússnesku úrvalsdeildinni í vetur, á sinni fyrstu leiktíð í Rússlandi, og jafnframt tvö mörk í sex leikjum í Meistaradeild Evrópu, gegn Real Madrid og Roma. Ljóst er að mörg félög eru með þennan tvítuga Akurnesing í sigtinu og hæglega gæti farið svo að hann yfirgefi CSKA þegar félagaskiptaglugginn opnast í Evrópu í sumar.

Næsta verkefni Arnórs og Harðar eru landsleikirnir við Albaníu og Tyrkland á Laugardalsvelli, 8. og 11. júní, í undankeppni EM 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert