De Ligt ekki með draumafélag

Matthijs de Ligt sló rækilega í gegn í vetur.
Matthijs de Ligt sló rækilega í gegn í vetur. AFP

Hollenski miðvörðurinn Matthijs de Ligt virðist vera ein „heitasta söluvaran“ í fótboltanum í sumar en þessi 19 ára fyrirliði Hollandsmeistara Ajax er væntanlega á förum frá félaginu.

Barcelona og Manchester United hafa helst verið nefnd til sögunnar í kapphlaupinu um De Ligt og virðist Barcelona ætla að hafa betur, samkvæmt fréttum spænskra miðla. Sky Sports fullyrti svo um helgina að United myndi ekki reyna að fá De Ligt þar sem að hann væri á förum til Barcelona.

„Ég veit ekkert enn þá  Það er búið að segja og skrifa margt. Þannig hefur þetta verið allt þetta ár og ég ætla ekki að láta það trufla mig,“ sagði De Ligt sjálfur við hollenska miðilinn NOS Sport. Félagi hans úr Ajax, Frenkie de Jong, hefur þegar samið við Barcelona.

„Frenkie er búinn að velja Barcelona en ég hef ekki ákveðið neitt. Þannig er þetta. Maður þarf að skoða hvað hentar best fyrir mann sjálfan og taka eigin ákvörðun. Það er alveg rétt að það eru nokkur félög áhugasöm,“ sagði De Ligt, en hvar dreymir hann um að spila?

„Ég á mér í raun ekkert draumafélag nema Ajax. Það var alltaf draumurinn að spila fyrir Ajax og það tókst. Núna þarf ég að skoða hvað hentar best fyrir minn feril og hvar ég á mesta möguleika á að bæta mig,“ sagði De Ligt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert