Enn einn skandallinn hjá FIFA

Útlinur Gianni Infantino, forseta FIFA, á nýafstöðnu ársþingi sambandsins.
Útlinur Gianni Infantino, forseta FIFA, á nýafstöðnu ársþingi sambandsins. AFP

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur enn á ný komist í kastljós fjölmiðla á röngum forsendum, en nýtt spillingarmál virðist vera komið upp innan sambandsins.

Í dag var greint frá því að Ahmad Ahmad, forseti afríska knattspyrnusambandsins og einn af varaforsetum FIFA, hefði verið handtekinn á hóteli sínu í Frakklandi þar sem hann dvaldi. Var það vegna gruns um spillingu.

Samkvæmt fréttum er til rannsóknar samningur sem afríska knattspyrnusambandið gerði við franskan íþróttavöruframleiðanda árið 2017. Samningurinn við Tactical Steel gaf sambandinu rúmlega milljón evrur, en fyrri samningur sambandsins við Puma hafði verið metin á rúmar 300 þúsund evrur.

Í yfirlýsingu frá FIFA í dag segir að sambandinu sé ekki kunnugt um málavexti og gæti ekki tjáð sig efnislega um hvað gengi á. Það hafi óskað eftir upplýsingum frá frönskum yfirvöldum og vilji hjálpa til að uppræta spillingu, ef grunur um slíkt reynist á rökum reistur.

Árið 2015 fór af stað ferli sem kom upp um risaskandal innan FIFA þar sem um 40 manns voru ákærðir. Sepp Blatter, fyrrverandi forseti sambandsins, var þar á meðal.

Á ársþingi FIFA sem fram fór á dögunum, þar sem Gianni Infantino var endurkjörinn forseti, lagði hann áherslu á það að FIFA myndi ekki verða í eldlínunni í hneykslismálum á ný. 

Ahmad Ahmad, forseti afríska knattspyrnusambandsins.
Ahmad Ahmad, forseti afríska knattspyrnusambandsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert