Hvað er svona merkilegt við Michels?

Rinus Michels og lærisveinninn Johan Cruyff.
Rinus Michels og lærisveinninn Johan Cruyff.

Hollenski knattspyrnuþjálfarinn Rinus Michels var valinn besti knattspyrnustjóri allra tíma á þessu ári af tímaritinu France Football.  Fyrir knattspyrnuáhugafólk sem ekki er vel að sér í sögunni er hér reynt af veikum mætti að varpa örlitlu ljósi á hvers vegna Michels er í svo miklum metum hjá sparkspekingum.

Hvað er svona merkilegt við þennan Rinus Michels? Stutta svarið við þeirri spurningu er þau ofboðslega miklu áhrif sem Michels hafði á íþróttina. Skemmtilega spilamennsku Ajax og Barcelona má rekja til þessa ágæta manns og þeirra áhrifa gætti enn eftir hans dag. Ef þú lesandi góður ert að horfa á Ajax, Barca eða Manchester City um þessar mundir má segja að þar séu áhrif frá Michels. Þar hefur hann vinninginn á Sir Alex Ferguson sem hafnaði í öðru sæti listans en greinarhöfundur verður seint sakaður um tómlæti í garð Skotans sigursæla.

Valið á Michels er í taki við ýmsar aðrar vegtyllur í gegnum tíðina. Rétt fyrir aldamótin valdi FIFA hann knattspyrnustjóra aldarinnar. Árið 2007 stóð The Times fyrir vali á besta knattspyrnustjóranum eftir seinni heimsstyrjöld og þann lista toppaði Michels einnig. Fyrst og fremst vegna þess að hann er höfundur leikstílsins sem kallaður hefur verið: Total Football.

Hafa ekki Ajax og Barca alltaf verið frábær?

Ekki er náttúrulögmál að lið eins og Ajax og Barcelona séu sigursæl og nái árangri með leikstíl sem almenni áhugamaðurinn kann að meta. Einhvers staðar byrjar slíkt ferli og hjá báðum þessum sjarmerandi liðum má rekja það til Michels.

Michels tók við sem stjóri Ajax árið 1965 en liðið hafði þá barist fyrir lífi sínu í efstu deild. Ajax hafði fram að því orðið tíu sinnum hollenskur meistari, fyrst árið 1918, en var ekki orðið stórveldi í neinum skilningi. Michels hóf mikla sigurgöngu Ajax en á næstu árum varð liðið fjórum sinnum hollenskur meistari og þrívegis bikarmeistari.

Ári áður en Michels tók við hafði Johan Cruyff, einn snjallasti leikmaður allra tíma, leikið sinn fyrsta leik fyrir Ajax. Að sjálfsögðu hafði snilli Cruyff mikil áhrif á árangurinn en á hinn bóginn er ekki víst að Cruyff hefði blómstrað hjá hvaða stjóra sem var. Cruyff var eins og sagan sýnir afskaplega flókin persóna og var erfiður í samskiptum svo það sé nú bara orðað pent. Michels nýtti hins vegar krafta Cruyff til hins ítratasta eins og hann gerði við fleiri snjalla knattspyrnumenn sem komu fram á sjónarsviðið hjá Ajax á þessum tíma.

Ajax braut mikinn ís þegar það komst í úrslit Evrópukeppni meistaraliða árið 1969. Tapaði liðið þá fyrir ítalska stórveldinu AC Milan. Undir stjórn Michels varð Ajax Evrópumeistari meistaraliða í fyrsta skipti árið 1971 en þá hafði Johan Neeskens bæst við leikmannahópinn, en hann ræddi á dögunum við SunnudagsMoggann. Grunnurinn var lagður af Michels og liðið vann þá keppni þrjú ár í röð.

Hin varanlegu áhrif

Sigrar í keppnum eru eitt en annað og meira eru hin varanlegu áhrif á íþróttina. Undir stjórn Michels spilaði Ajax: Total football.  Hvað felur það í sér? Í einfaldri mynd má segja að þá hafi varnarmenn verið notaðir til að sækja ef því var að skipta og sóknarmenn þurftu að verjast með því að pressa andstæðinginn. Engir farþegar á vellinum. Liðspressan var þegar best lét hálfgert listaverk þar sem Ajax var gjarnan með þrjá menn á móti tveimur þegar varnarmenn andstæðinganna reyndu að byggja upp spil. Total football snérist ekki eingöngu um flugeldasýningu þótt það væri oft raunin heldur einnig leikstíl sem gæti skilað árangri. Sem hann gerði.

Total football hefur stundum verið notað yfir lið sem halda boltanum vel innan liðsins. Eins og Ungverjarnir á 6. áratugnum. Er það gott og blessað en Ajax undir stjórn Michels var mun aggressívara í að pressa andstæðinginn í þeim tilgangi að ná boltanum aftur.

 Ýmislegt fleira mætti tína til og undir stjórn Michels sáu knattspyrnuunnendur rangstöðugildru líklega notaða í fyrsta skipti. Í það minnsta kerfisbundið. Á sama tíma og leikmenn fengu að spila skemmtilega knattspyrnu þá var aginn mikill hjá Michels. Hann réði ferðinni og gerði það skipulega. Sú lýsing bergmálar í eftirmælum um hann frá leikmönnum sem léku undir hans stjórn.

Rinus Michels fagnar sigrinum á EM 1988.
Rinus Michels fagnar sigrinum á EM 1988.

Michels var fenginn til að stjórna hollenska landsliðinu á HM 1974 í Vestur-Þýskalandi. Holland fór þar í úrslit en tapaði fyrir gestgjöfunum 2:1 eftir að hafa komist yfir 1:0 á Ólympíuleikvanginum í München. Fyrsta mark leiksins er magnað fyrir þær sakir að staðan var orðin 1:0 áður en Þjóðverjarnir höfðu náð að snerta boltann. Hollendingar tóku miðjuna í upphafi leiks. Léku á milli sín um stund áður en Cruyff tók á rás inn í teiginn og var felldur. Neeskens skoraði úr vítinu.

HM 1974 er mikilvægt í þessu samhengi vegna þess að þá uppgötvaði knattspyrnuáhugafólk víða um heiminn Total football. Þótt Ajax hafi náð miklum árangri þá er HM annað og meira. Hollendingar unnu hug og hjörtu sparkelskra undir stjórn Michels á HM 1974 þótt þeir næðu ekki að vinna úrslitaleikinn gegn sterku liði Vestur-Þjóðverja.

Barca nútímans verður til

Árið 1971 hleypti Michels heimdraganum og tók við FC Barcelona. Var ekki Barcelona sama stórveldið þá og það er í dag? Nei nei. Barca hafði vissulega unnið spænsku deildina átta sinnum frá árinu 1929 en hafði þurft að standa í skugga Real Madrid eins og önnur lið á Spáni. Michels stýrði Barcelona til sigurs á Spáni árið 1974 og hafði þá fengið Cruyff til sín. Fyrsti sigur Barca í deildinni í fjórtán ár.

Í febrúar 1974 varð FC Barcelona nútímans til að margra mati. Barcelona skellti þá Real Madrid 5:0 í deildarleik í Madrid. Manita eins og Gummi Arngríms og félagar hans í katalónsku sjálfstæðishreyfingunni kalla sigurinn. Í herbúðum Real Madrid var lagt á ráðin um að valda Cruyff með svæðisvörn en hann var iðulega í fremstu víglínu hjá Barcelona. Var nía eins og það er kallað þótt það hafi ekki verið hans hlutverk hjá Ajax.

Michels brá á það ráð að láta Cruyff bakka til að fá meira rými. Herbragðið svínvirkaði eins og úrslitin sýna. Cruyff sagði sjálfur síðar að útspil Michels hafi verið snilldarlegt. Hann var í yfirtölu á miðjunni ásamt samherjum sínum ef varnarmennirnir eltu hann ekki. Ef þeir hins vegar eltu hann út úr vörninni þá vantaði einn mann í varnarlínuna.

Rétt eins og með Ajax þá eru áhrif Michels í raun enn meiri síðar í sögu Barcelona. Ekki síst vegna þess að Cruyff tók við kyndlinum. Verður nánar komið inn á það í næstu grein.

Stærsta afrek hollenska karlalandsliðsins

Sannar hetjur þurfa að fá rúsínu í pylsuendann að hætti Hollywood áður en þeir ganga inn í sólarlagið. Það fékk Michels svo sannarlega. Holland hafði aldrei unnið stórmót karla í knattspyrnunni þegar kom að EM 1988. Michels var fenginn til að stýra liðinu og vor var í hollenski knattspyrnu. Landsliðið hafði ekki komst á HM 1986 en skyndilega var liðið firnasterkt. Ruud Gullit var knattspyrnumaður ársins í Evrópu 1987 og Marco Van Basten var einnig keyptur til AC Milan eftir að hafa brillerað hjá Ajax.

Fleiri sterkir leikmenn voru í liðinu eins og Ronald Koeman, Frank Rikjaard og galdramaðurinn Gerald Vanenburg. Michels var auk þess með einn gamlan lærisvein í liðinu, Arnold Mühren, sem hafði verið í Ajax-liðinu 1971. Síðast en ekki síst hafði PSV unnið Evrópukeppni meistaraliða vorið 1988 og sjálfstraustið var því gott í herbúðum Hollendinga.

Michels gerði Holland að Evrópumeisturum og ekki dvínaði ljóminn yfir arfleið hans við það. Keppnin fór þar að auki fram í Vestur-Þýskalandi þar sem Michels hafði tapað úrslitaleiknum 1974. Og Vestur-Þjóðverjar voru lagðir að velli í undanúrslitum þrátt fyrir að varnarjaxlinn eitilharði Jürgen Kohler hefði um stundarsakir fært lögheimili sitt til Vans Basten.

Dæmið snérist við því Vestur-Þjóðverjar komust í 1:0 að þessu sinni en Hollendingar unnu 2:1. Aftur skoruðu liðin sitt hvort markið úr víti. Knattspyrnusagan er oft einkennileg en stjóri Þjóðverja var keisarinn Franz Beckenbauer. Hann hafði verið fyrirliði þeirra í úrslitaleiknum 1974.

Rinus Michels og Johan Cruyff eftir sigurinn í Evrópukeppni meistaraliða …
Rinus Michels og Johan Cruyff eftir sigurinn í Evrópukeppni meistaraliða árið 1971.

Michels var með gott lið í höndunum og spilaði rétt úr sínum spilum. Van Basten og Rikjaard höfðu báðir verið mikið meiddir um veturinn. Margir sparkspekingar töldu þá ekki vera í leikæfingu og höfðu nokkuð til síns máls. En hungrið í að spila skipti meira máli og Michels áttaði sig á því. Ekki er víst að allir hefðu farið sömu leið. Hollendingar höfðu auk þess aldrei áður unnið stórmót  í karlaflokki í knattspyrnunni og hafa ekki gert síðan. Þar af leiðandi er um mikið afrek að ræða fyrir Holland.

Michels stýrði Hollandi aftur á EM í Svíþjóð 1992. Þegar komið var alla leið í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum þá reyndist danski markvörðurinn Peter Schmeichel númeri of stór fyrir Hollendingana.

Enginn hafði meiri áhrif á Cruyff

Rinus Michels fæddist hinn 9. febrúar 1928. Hann lést hinn 3. mars 2005 eftir að hafa fengið sitt annað hjartaáfall. Eftir andlátið sagði Johan Cruyff við Paul Gallagher engan hafa haft jafn djúpstæð áhrif á sig sem leikmann og knattspyrnustjóra en Michels. „Ég var fullur lotningar gagnvart leiðtogahæfileikum hans.“ Þegar ferill Cruyff er skoðaður er það ekki lítið hrós.

Önnur grein þar sem betur verður komið inn á tengsl Ajax og Barcelona verður birt hér á á mbl.is að viku liðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert